Sauðfjárbændur í Hrunamannahreppi álykta vegna riðuveiki

Hrunaréttir. sunnlenska.is/Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir

Aðalfundur Sauðfjárræktarfélags Hrunamanna, sem haldinn var á Flúðum þann 23. apríl síðastliðinn, samþykkti samhljóða ályktun þar sem meðal annars er skorað á Matvælastofnun að leyfa kaup á milli sauðfjárbúa innan varnarhólfs á líflömbum sem bera í sér verndandi arfgerð gegn riðuveiki.

„Verndandi arfgerðir fyrir riðu hafa fundist hér á landi og því verða stjórnvöld að bregðast við strax með auknu fjármagni til rannsókna og arfgerðagreininga. Með því má flýta fyrir riðuþolnum stofni og koma í veg fyrir kostnaðarsaman, umdeildan og sársaukafullan niðurskurð sem hefur verið veruleikinn fram til þessa,“ segir í ályktun fundarins, sem skorar á MAST að leyfa kaup á líflömbum, sem bera í sér verndandi arfgerð, á milli sauðfjárbúa innan sveitarfélags eða varnarhólfs.

„Með því móti má hraða mikilvægri þróun í baráttunni við þennan illvíga sjúkdóm, sporna gegn skyldleikaræktun og stytta þann tíma sem tekur bændur að koma sér upp hjörðum sem að fullu bera verndandi arfgerð gegn riðu. Jafnframt skorar fundurinn á yfirvöld að bændum verði heimilt að sækja fé sitt í réttir, óháð varnarlínum, beri féð sannarlega í sér þessa verndandi arfgerð. Þá hefur fundurinn efasemdir um margar hinna svokölluðu varnarlína í núverandi mynd sem engan veginn hafa staðið undir nafni sem slíkar.“

Fundurinn lýsti einnig yfir stuðningi við ályktun sem fundur sauðfjárbænda í Miðfirði sendi frá sér þann 16. apríl síðastliðinn, sem og stuðningsyfirlýsingu stjórnar sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu og hvetur matvælaráðherra til að innleiða nú þegar viðauka VII í heild við ESB-reglugerð nr. 999/2001 sem tók gildi á Íslandi 2012, en sá kafli var undanskilinn við innleiðingu reglugerðarinnar.

„Þá sendir fundurinn góðar kveðjur til sauðfjárbænda um land allt með von um að vorið verði hagfellt á komandi sauðburði og hvetur til þess að til að allir leggi sitt að mörkum í hinu stóra verkefni framundan sem er að byggja upp verndandi arfgerð gegn riðu í íslensku sauðfé. Að lokum sendir Sauðfjárræktarfélag Hrunamanna hlýjar baráttukveðjur til sauðfjárbænda í Miðfirði í Húnavatnssýslu og vonast er til að síðasti niðurskurðurinn vegna riðu sé afstaðinn.“

Fyrri greinFjölnir marði Ægi – Selfyssingar töpuðu
Næsta greinKA tekur forystuna í einvíginu