Sauðfjárbændum býðst beitarsvæði í Meðallandi

Bændum á öskufallssvæðum býðst beitarsvæði fyrir sauðfé í landgræðslugirðingu í Meðallandi.

Það er Landgræðsla ríkisins sem á hólfið sem kennt er við Leiðvöll. Þetta er gert til að létta á vandræðum sauðfjárbænda á gossvæðinu.

Girðingin nær frá Kúðafljóti austur að Hnausum og er girt af með rafmagnsgirðingu, um 3.000 hektarar alls.

Um helgina verða girðingar yfirfarnar og beitargildi metið. Að því loknu ætti að vera ljóst hvenær flytja má fé í girðinguna. Heimilt er að flytja sauðfé innan varnarhólfins sem nær frá Markarfljóti austur að Gígjukvísl í þessa girðingu.

Þetta kemur fram á vef Búnaðarsambands Suðurlands.