Sauðfé tekið úr vörslu eiganda

Í lok síðustu viku svipti Matvælastofnun umráðamanni sauðfjár á Suðurlandi öllum kindum sínum. Ástæða vörslusviptingar er sinnuleysi án þess að kröfur stofnunarinnar væru virtar.

Í lögum um velferð dýra segir að umráðamönnum dýra beri að tryggja dýrum góða umönnun, þ.m.t. að sjá til þess að þörfum dýranna sé sinnt að jafnaði einu sinni á dag.

Búið er að fá aðila til að annast dýrin fram yfir sauðburð. Matvælastofnun er heimilt að krefja eiganda dýranna um kostnað af þvingunaraðgerðum en um er að ræða á annan tug áa og verða þær áfram á staðnum í umönnun umsjónarmanns.

Í tilkynningu frá MAST segir að ástand dýranna sé viðunandi í dag og gefi ekki tilefni til frekari aðgerða að svo stöddu.

Fyrri greinMagnaður sigur Ægis á Akureyri – Selfoss marði Kára
Næsta greinÓperan Gianni Schicchi sýnd á Flúðum