Sauðfé fjarlægt af bæ í Suðurumdæmi

Matvælastofnun hefur svipt bónda í Suðurumdæmi sauðfé sínu vegna óviðunandi aðbúnaðar og umhirðu. Rúmlega 300 kindum á bænum hefur nú verið slátrað.

Í tilkynningu frá Matvælastofnun segir að um ítrekuð brot var að ræða án þess að kröfur Matvælastofnunar um úrbætur væru virtar.

Matvælastofnun hefur haft afskipti af sauðfjárbýli í Suðurdæmi undanfarin ár vegna ófullnægjandi aðbúnaðar og umhirðu. Húsakostur á bænum var m.a. ófullnægjandi síðastliðinn vetur en tryggja þarf viðeigandi húsnæði og innréttingar skv. lögum um velferð dýra. Matvælastofnun gaf lokafrest til úrbóta til 15. september til að tryggja fullnægjandi aðstöðu dýra í vetur en kröfur um úrbætur voru ekki virtar.

Með dýravelferðarlögum hefur Matvælastofnun heimild til að framkvæma vörslusviptingu á dýrum þegar dýraeigendur fylgja ekki reglum um velferð dýra og virða ekki tilgreinda fresti sem þeim eru gefnir. Þær rúmlegu 300 kindur sem voru á bænum voru fjarlægðar og sendar til slátrunar.

Fyrri greinKeppendur HSK unnu tíu af ellefu titlum
Næsta greinBjóða viðbyggingu við Lund út aftur