Sátt náðist í Sólheimadeilunni

Tíu mánaða löngum viðræðum milli Sólheima í Grímsnesi og sveitarfélaganna á Suðurlandi lauk í gær með undirritun þjónustusamnings til þriggja ára.

Samningurinn var undirritaður í húsakynnum ríkissáttasemjara síðdegis í gær. Sólheimar, sem þjónustar fólk með þroskahömlun, hafa verið án samnings frá því um síðustu áramót, eða frá því að sveitarfélögin tóku við málefnum fatlaðra.

Guðmundur Ármann Pétursson, framkvæmdastjóri Sólheima, sagði í fréttum Bylgjunnar í dag að ferlið hafi verið langt. „Þannig að það er þess meiri léttir að það sé búið að skrifa undir samning. Reyndar á bæði fulltrúaráð Sólheima eftir að fá samninginn til umfjöllunar og líka bakland Árborgar.

Sveitarfélagið Árborg hefur sýnt mikil heilindi í málinu og þetta hefur verið leitt vel af hendi ríkissáttasemjara og svo hefur líka tekið drjúgan tíma að fá gögn sem voru málinu nauðsynleg þannig að hægt væri að klára þetta. Þetta hefur jafnt og þétt verið að færast nær endamarkinu og menn náðu að setja stafina sína undir í gær og það var góð tilfinning,“ segir Guðmundur.

Guðmundur vill ekki greina frá efni samningsins fyrr en hann fer fyrir fulltrúaráð Sólheima og stjórn þjónustusvæðis um málefni fatlaðra á Suðurlandi.