SASS vill að stjórnvöld grípi strax inn í kjaradeilu flugumferðarstjóra

Ferðaþjónusta er undirstöðuatvinnugrein á Suðurlandi. Ljósmynd/Markaðsstofa Suðurlands

Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS), sem nú stendur yfir á Kirkjubæjarklaustri, samþykkti í dag ályktun þar sem skorað er á stjórnvöld að grípa strax inn í kjaradeilu flugumferðarstjóra með lagasetningu.

Krefst þingið þess að ríkisstjórnin stöðvi þá miklu óvissu sem vofir yfir ferðaþjónustu á Íslandi vegna deilunnar.

Í ályktuninni er bent á að ferðaþjónusta sé undirstöðuatvinnugrein á Suðurlandi sem eigi allt sitt undir samgöngum um Keflavíkurflugvöll. Það sé óásættanlegt að landshlutinn þurfi að búa við þá óvissu sem aðgerðir flugumferðarstjóra skapa.

Ályktunin er eftirfarandi:
„Ársþing SASS haldið á Kirkjubæjarklaustri 23. – 24. október skorar á stjórnvöld að grípa strax inn í kjaradeilu flugumferðarstjóra með lagasetningu og stöðva þá óvissu sem liggur yfir ferðaþjónustu á Íslandi. Ferðaþjónusta á Suðurlandi er undirstöðuatvinnugrein landshlutans sem á allt undir samgöngum á Keflavíkurflugvelli og á ekki að búa við óvissu sem þessa. Tryggja þarf ríkissáttarsemjara strax með lögum úrræði til að koma í veg fyrir verkfall sem boðað hefur verið.“

Fyrri greinGreindi sprengju með hjálp gervigreindar
Næsta greinHöttur leiddi allan tímann