SASS stofnar þekkingarsetur um úrgangsmál

Ásgerður Kristín Gylfadóttir, formaður bæjarráðs á Hornafirði og formaður SASS, og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, við undirritun samkomulags um þekkingarsetrið. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, undirritaði nýlega samkomulag um fjárstuðning við Samtök sunnlenskra sveitarfélaga til að stofna þekkingarsetur á Laugarvatni um úrgangsmál.

Tilgangur þekkingarsetursins er að aðstoða sveitarfélög að innleiða hringrásarhagkerfi í úrgangsmálum með megináherslu á endurnýtingu og þar með að draga úr urðun heimilisúrgangs – sem er stórt loftslagsmál. Ásgerður Kristín Gylfadóttir, formaður bæjarráðs á Hornafirði og formaður SASS undirritaði samkomulagið ásamt Sigurði Inga.

Í samkomulaginu segir að markmiðið sé að leiða saman sveitarfélög, atvinnulíf og háskóla til að vinna að samfélagslegri uppbyggingu, sem byggi á stoðum fræðimennsku, hagkvæmni einkaframtaksins og vilja til að gera enn betur. Samkomulagið gildir til ársins 2024 og nemur fjárstyrkurinn tæpum 5,9 milljónum króna.

„Með þessari styrkveitingu er ætlunin að skapa mikilvægan vettvang til að veita sveitarfélögum ráðgjöf og gera kleift að standa við markmið sín varðandi úrgangsmál og stuðla að framþróun og uppbyggingu á því sviði,“ segir Sigurður Ingi.

Þekkingarsetrið mun aðstoða sveitarfélög við að halda utan um málaflokkinn og laga sig að nútímalegri úrgangsstjórnun. Það mun einnig birta upplýsingar um þjónustugjöld og raunkostnað við afsetningu úrgangs í öllum sveitarfélögum og koma á samræmingu á úrgangsgögnum frá mismunandi þjónustuaðilum.

Fyrri greinHamarsmenn meistarar meistaranna
Næsta greinTryggjum framtíð Garðyrkjuskólans að Reykjum