SASS mátti semja við Hópbíla

Kærunefnd útboðsmála hafnaði í gær kröfu Bíla og fólks ehf um að samningur Sambands sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) og Hópbíla hf. um almenningssamgöngur á Suðurlandi yrði felldur úr gildi.

Í byrjun desember kærði Bílar og fólk ákvörðun SASS um að semja við Hópbíla hf. um almenningssamgöngur á Suðurlandi.

SASS auglýsti útboð á almenningssamgöngum á Suðurlandi í september sl. Þjónustunni var skipt upp í tvo hluta og hægt var að gera tilboð í verkhluta 1, verkhluta 2 og verkhluta 1 og 2 saman. Bílar og fólk gerðu tilboð í verkhluta 1 og verkhluta 2, sína í hvoru lagi, en einnig eitt tilboð sameiginlega í báða verkhlutana.

Bílar og fólk áttu lægsta tilboðið en þegar tilboðin voru opnuð þann 24. október tilkynnti fyrirtækið að mistök hefðu verið gerð við tilboðsgerðina þannig að tilboðið í verkhluta 1 og 2 saman hefði orðið mun lægra en ætlunin var. SASS valdi tilboð Bíla og fólks sem tilkynnti síðan að fyrirtækið gæti ekki staðið við tilboðið nema lagfæringar yrðu gerðar á því en það samþykkti SASS ekki.

Í framhaldinu urðu nokkrar bréfaskriftir og sáttaumleitanir milli Bíla og fólks og SASS. Samningsumleitanir tókust ekki og Bílar og fólk ítrekuðu að fyrirtækið gæti ekki staðið við tilboð sitt án leiðréttingar. SASS rifti þá samningnum við Bíla og fólk hinn 25. nóvember og gekk í kjölfarið til samninga við Hópbíla sem undirritaður var 2. desember.

Bílar og fólk héldu því fram við kærunefndina að tilboð sitt hafi verið haldið annmarka og þannig verið ógilt. Eftir að SASS hafi rift samningnum við Bíla og fólk hafi staðið eftir að tilboð Bíla og fólks í verkhluta 1 og verkhluta 2 séu lægstu gildu tilboðin sem bárust í kjölfar útboðsins. Þannig telur fyrirtækið að SASS hefði átt að ganga til samningaviðræðna við Bíla og fólk á grundvelli þeirra tilboða.

SASS hafnar því að sameiginlegt tilboð Bíla og fólks í verkhluta 1 og 2 saman hafi verið ógildanlegt. Yfirlýsing Bíla og fólks um að fyrirtækið gæti ekki staðið við samninginn á grundvelli tilboðsins óbreyttu hafi falið í sér fyrirsjáanlega vanefnd fyrirtækisins og þannig gefið SASS heimild til riftunar. Í kjölfar hennar hafi SASS verið samningslaust og aðrir bjóðendur ekki lengur bundnir af tilboðum sínum. Auk þess hafi öll önnur tilboð verið langt umfram kostnaðaráætlun.

SASS segir einnig að næst lægsta tilboði Bíla og fólks hefði aldrei verið tekið sökum fyrri framgöngu fyrirtækisins við samningsgerðina. SASS kannaði möguleikana á því að láta fara fram nýtt útboð en það va metið mjög óhagstætt og ólíklegt að betri tilboð myndu berast sem féllu innan fjárheimilda SASS. Nýtt útboðsferli hefði tekið um fimm mánuði en SASS hafði skuldbundið sig að tryggja almenningssamgöngur á Suðurlandi frá áramótum. Við samningsgerðina við Hópferðir hafi öll skilyrði til samningskaupa án undanfarandi útboðsauglýsingar verið uppfyllt enda hafi öll tilboðin sem bárust í útboðinu að frátöldu áðurnefndu lægsta tilboði Bíla og fólks, verið alltof há og þannig óaðgengileg.

Kærunefnd útboðsmála segir í úrskurði sínum að samningur SASS við Hópbíla hafi verið gerður á grundvelli samningskaupa við einn aðila. Þannig sé bindandi samningur kominn á og verður hann ekki felldur úr gildi eða breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt. Af þeirri ástæðu telur kærunefnd útboðsmála ekki skilyrði til að fella úr gildi ákvörðun SASS um að semja við Hópbíla um almenningssamgöngur á Suðurlandi.

Þegar SASS valdi tilboð Bíla og fólks hafi hinu kærða útboði verið lokið. Ástæða þess að ekkert varð af samningi er að fyrirtækið vildi ekki standa við tilboð sitt. Kærunefnd telur því ekki að SASS hafi bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart Bílum og fólki og kröfu fyrirtækisins um að SASS greiddi málskostnað var einnig hafnað.

Fyrri greinTap á Skipaskaga
Næsta greinAtvinnulausir fá ekki frítt í sund frekar en aðrir