Alþjóðlega samstarfsverkefninu INNOCAP, sem unnið var með styrk frá Interreg Norðurslóðaáætluninni, er nú formlega lokið. Samtök sunnlenskra sveitarfélaga hafa leikið lykilhlutverk í verkefninu með þróun á stafrænu lausninni Úrgangstorgi, sem varpar nýju ljósi á kostnað og magn úrgangs í sveitarfélögum.
Sem þátttakandi í INNOCAP þróaði SASS „Úrgangstorg“ – gagnasvæði sem sameinar upplýsingar um úrgangsmagn og kostnað sveitarfélaga í eitt aðgengilegt greiningarviðmót. Verkefnið var unnið í nánu samstarfi við þrjú sveitarfélög á Suðurlandi og fól meðal annars í sér umfangsmikla söfnun, samræmingu og greiningu gagna úr reikningum þjónustuaðila.
Dýrmætur lærdómur
Þrátt fyrir að „Úrgangstorg“ sé enn á tilraunastigi hefur vinnan skilað mikilvægum upplýsingum. Verkefnið sýndi skýrt fram á þörfina fyrir samræmd gagnasnið, sjálfvirkt gagnaflæði og notendavænni framsetningu upplýsinga í málaflokknum.
Elísabet Björney Lárusdóttir, umhverfissérfræðingur SASS sem leiddi verkefnið, segir reynsluna nýtast vel til framtíðar
„Verkefnið hefur sýnt okkur svart á hvítu hversu mikilvægt það er að hafa aðgengileg og áreiðanleg gögn í úrgangsmálum. Með Úrgangstorgi vildum við búa til tæki sem gefur sveitarfélögum raunverulega yfirsýn, ekki bara yfir kostnað heldur líka magn og flokkunarhlutfall. Þessi tilraunafasi leiddi í ljós að stafrænar lausnir og samræming gagna er nauðsynleg til að við getum tekið upplýstar ákvarðanir í umhverfismálum og stutt betur við hringrásarhagkerfið. Lærdómurinn úr INNOCAP er dýrmætur grunnur fyrir næstu skref,“ segir Elísabet.

