SASS fær veglegan styrk vegna þekkingarseturs á Klaustri

Kirkjubæjarklaustur. sunnlenska.is/Sigurður Hjálmarsson

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga fá 67,5 milljón króna styrk frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra vegna þekkingarseturs í Skaftárhreppi.

Ráðherra úthlutaði í vikunni 71,5 milljónum króna til verkefna á landsbyggðinni sem ætlað er að efla byggðir landsins. Fjármununum er úthlutað til sértækra verkefna á sóknaráætlunarsvæðum í samræmi við stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018 til 2024.

Alls bárust 19 umsóknir fyrir árið 2019 um styrki að fjárhæð rúmar 278 milljónir króna. Níu verkefni hlutu styrk að þessu sinni.

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga fá styrk til að undirbúa hönnun á þekkingarsetri á heimavist Kirkjubæjarskóla. Breyta á heimavistarálmu, ljúka hönnun og gera útboðsgögn fyrir nýbyggingu Erróseturs. Verkefnið er styrkt um 17,5 milljónir króna á árinu 2019 og um 25 milljónir króna árlega árin 2020-2021, samtals 67,5 milljónir króna.

Þriggja manna valnefnd fór yfir umsóknir og gerði tillögur til ráðherra. Í valnefndinni sátu þau Elín Gróa Karlsdóttir, verkefnisstjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Magnús Karel Hannesson, fv. starfsmaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og Stefanía Traustadóttir, sérfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, sem var formaður.

Fyrri greinÞrír í gæsluvarðhald vegna framleiðslu fíkniefna
Næsta greinGuðmundur Kr. kjörinn heiðursfélagi Umf. Selfoss