Sárnar að koma verst út úr niðurskurði

Ófaglærðu starfsfólki við Heilbrigðisstofnun Suðurlands sárnar að vera sá hópur starfsmanna sem hvað helst verður fyrir barðinu á niðurskurðinum.

Hins vegar hefur það fullan skilning á því vandasama hlutverki stjórnenda Hsu að þurfa að skera niður. Þetta kemur fram í bréfi sem Báran stéttarfélag hefur sent á stjórnendur Hsu.

„Við höfum undanfarið verið á fundum með yfirstjórn HSu þar sem farið hefur verið yfir stöðu stofnunarinnar og hvaða leiðir eru hugsanlegar til sparnaðar.

Frá því að hrunið fór að hafa áhrif á rekstur stofnunarinnar hefur sífellt verið kreppt að starfseminni.

Við ófaglært starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Suðurlands höfum fullan skilning á því vandasama hlutverki stjórnenda stofnunarinnar að þurfa að skera niður og höfum reyndar lagst á sveif með stjórnendum þegar kemur að því að reyna að hafa áhrif á stjórnvöld til að draga úr beittasta niðurskurðinum. Stéttarfélag okkar hefur staðið framarlega í samvinnu við önnur stéttarfélög og hagsmunasamtök við að reyna að hafa áhrif á heilbrigðisyfirvöld.

Því þykir okkur sárt að þurfa að vera sá hópur starfsmanna Heilbrigðisstofnunar sem hvað helst verður fyrir barðinu á niðurskurðinum.

Okkur fækkar jafnt og þétt og þau okkar sem eftir eru þurfa að hlaupa hraðar og taka á okkur verkefni sem við teljum í mörgum tilvikum vera á mjög gráu svæði, faglega séð.

Við teljum fleiri leiðir færar til hagræðingar en stjórnendur vilja viðurkenna og hvetjum þá til að skoða sér nær þegar taka þarf ákvarðanir um sparnað,” segir í bréfinu.