Sara Rosida dúxaði í ML

Stúdentahópurinn ásamt Jónu Katrínu Hilmarsdóttur skólameistara. Ljósmynd/ML

Brautskráning fór fram frá Menntaskólanum að Laugarvatni síðastliðinn laugardag þar sem 43 nemendur voru útskrifaðir, 24 af félags- og hugvísindabraut og 19 af náttúrfræðabraut.

Dux nýstúdenta var Sara Rosida Guðmundsdóttir frá Leyni 1 í Biskupstungum með einkunnina 8,99. Sara hlaut viðurkenningar fyrir lokaverkefni sitt meðal annars en einnig hlaut hún Menntaverðlaun Háskóla Íslands fyrir góðan árangur á stúdentsprófi.

Semi dux nýstúdenta var Rannveig Arna Sigurjónsdóttir frá Hveragerði með einkunnina 8,85 og hlaut hún einnig ýmsar viðurkenningar fyrir góðan árangur á stúdentsprófi og má þar nefna lokaverkefni hennar og raunvísindaverðlaun Háskólans í Reykjavík. Dux scholae voru jafnar þær Sara Rosida Guðmundsdóttir og Ástrós Eva Aðalbjörnsdóttir frá Selfossi, báðar úr hópi nýstúdenta. Semi dux scholae voru einnig tveir, þau Eva María Sveinsdóttir nýstúdent frá Laugarvatni og Emil Rafn Kristófersson frá Flúðum.

Fjórar fengu fjárstyrk úr styrktarsjóði Kristins og Rannveigar
Við hverja útskrift veitir Styrktarsjóður Kristins Kristmundssonar og Rannveigar Pálsdóttur viðurkenningu fyrir góðan árangur á stúdentsprófi í formi fjárstyrks. Þetta árið fengu viðurkenningu þær Sara Rosida Guðmundsdóttir, Rannveig Arna Sigurjónsdóttir, Ástrós Eva Aðalbjörnsdóttir og Svava Þorsteinsdóttir frá Hellu. Rannveig Pálsdóttir frá Stóru-Sandvík, önnur stofnenda styrktarsjóðsins, var viðstödd útskriftina sem haldin var í Íþróttahúsinu á Laugarvatni.

70 ára júbílant mætti til athafnarinnar
Að athöfn lokinni bauð Menntaskólinn gestum sínum í kaffisamsæti í húsakynnum skólans. Þegar líða tók á daginn hófust endurfundir júbílanta en NEMEL, nemendasamband útskrifaðra nemenda frá Menntaskólanum að Laugarvatni, fær leyfi skólameistara til að hittast að brautskráningu lokinni í húsakynnum skólans. Sérstaka ánægju vakti að 70 ára júbílant, Óskar H. Ólafsson, gat verið viðstaddur útskriftarathöfnina og þáði kaffi á eftir. Óskar tilheyrði fyrsta útskriftarhópnum sem útskrifaðist frá ML árið 1954 og átti svo langan og afar farsælan feril sem kennari og aðstoðarskólameistari við skólann.

Dux nýstúdenta Sara Rosida Guðmundsdóttir. Ljósmynd/ML
Semi dux nýstúdenta Rannveig Arna Sigurjónsdóttir. Ljósmynd/ML
Styrkþegar úr Styrktarsjóði Kristins og Rannveigar með Rannveigu Pálsdóttur og skólameistara. Rannveig Arna Sigurjónsdóttir, Sara Rosida Guðmundsdóttir, Svava Þorsteinsdóttir og Ástrós Eva Aðalbjörnsdóttir. Ljósmynd/ML
Fyrri greinLandsbankinn styður áfram við Golfklúbb Selfoss
Næsta greinFjör í Flóa um helgina