Sápuverksmiðja í Hveragerði

Steinunn og Guðrún með hluta af framleiðslu sinni. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Sápuverksmiðjan er nýtt fyrirtæki staðsett í Hveragerði sem framleiðir umhverfisvænar og heilsusamlegar sápur úr gæðahráefnum. Það eru vinkonurnar Guðrún Helgadóttir og Steinunn Hrafnkelsdóttir sem standa á bak við Sápuverksmiðjuna.

„Við vorum báðar atvinnulausar og langaði að gera eitthvað skemmtilegt saman. Við höfum oft talað um það og í einu spjallinu um það tókum við ákvörðun um að prófa sápugerðina,“ segir Guðrún í samtali við sunnlenska.is

Sápur úr bjór og lavender
„Sápurnar eru án allra aukaefna, gæða olíur og fita notuð í þær. Flestar eru sápurnar vegan, það er ekki notaðar dýraafurðir í þær. Umbúðirnar eru unnar úr trjákvoðu og eru því umhverfisvænar,“ segir Guðrún og Steinunn bætir því við að meginmarkmið þeirra sé að útbúa gæðavöru sem unnin er úr gæðahráefni, án allra óæskilegra aukaefna og er að auki náttúruvæn.

„Við erum með fimm tegundir af sápum í framleiðslu eins og er, en það eru lavendersápa sem má einnig nota sem sjampó. Hunangs- og sítrónusápa, bjór og sandalwood, sítrónusápa og kaffi/vanillu sápa,“ segir Steinunn.

Hentar vel húðvandmálum
Guðrún segir að þær stöllur hafi verið búnar að ræða þessa hugmynd fyrir nokkrum árum. „En það var ekki fyrr en í byrjun þessa árs að við létum slag standa og fórum á fullt með hugmyndavinnuna. Steinunn hafði farið á sápugerðarnámskeið fyrir 15 árum síðan og því aðeins komið nærri þessu.“

„Viðtökur hafa verið góðar en við erum í raun í startholunum með að koma okkur á framfæri og í sölu með sápurnar okkar. Við höfum fengið mjög góðar umsagnir, sérstaklega frá þeim sem eru með einhvers konar húðvandamál, exem, bólur, flösu og fleira og það hvetur okkur áfram,“ segir Guðrún.

Hundasjampó væntanlegt
Aðspurð hvort það standi til að bæta við vöruúrvalið segir Steinunn að til að byrja með verði þær með þessar fimm tegundir. „En höfum hugsað okkur að gera bæði fleiri tegundir af sápum og einnig sjampóstykkjum. Einnig munum við koma með hundasjampóstykki á markað á næstu misserum.“

Ekki bara fyrir húðina
„Sápurnar fara einstaklega vel með húðina. Þær innihalda gæða olíur og fitu og ekki nein aukaefni sem svo oft eru í fjöldaframleiddum sápum í búðum. Við höfum notað þessar sápur til að ná erfiðum blettum úr fötum, til dæmis olíublettum og þrifið tauáklæði á húsgögnum og í bílum með góðum árangri. Einnig notað sápuspæni í skúringavatnið til að hreinsa parket og náttúruflísarnar sem gefur góðan gljáa og þrífur gólfið vel,“ segir Steinunn að lokum.

Hægt er að nálgast sápurnar í gegnum Facebook-síðu Sápuverksmiðjunnar og panta þær þar. Einnig eru þær til sölu í Fitness Bilinu í Hveragerði og í Sjafnarblómum á Selfossi. Fleiri útsölustaðir eru svo væntanlegir.

Sem stendur eru fimm mismunandi sápur í framleiðslu en von er á fleiri vörum í framhaldinu. sunnlenska.is/Jóhanna SH

 

Fyrri greinBílakjallaralykt er geggjuð
Næsta greinHellisheiði lokað til austurs vegna umferðarslyss