„Sannarlega þörf fyrir svona skiptimarkað“

Rakel tekur brosandi á móti krökkum í búningaleit fyrir öskudaginn. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Í Bókasafni Árborgar Selfossi hefur verið komið fyrir búningaskiptislá fyrir öskudaginn.

Hægt verður að koma með og ná í öskudagsbúninga til 13. febrúar á opnunartíma bókasafnsins og gefa þeim nýtt líf. Allir búningarnir verða lagðir í púkk og fólk má koma með og taka eins og það vill.

„Bókasöfn eru elsta hringrásarhagkerfi í heimi og um að gera að nýta þá reynslu á sem flestum sviðum öllum til hagsbóta. Og svo er þetta líka bara mjög skemmtilegt og viðbrögðin segja okkur að það er sannarlega þörf fyrir svona skiptimarkað,“ segir Rakel Sif Ragnarsdóttir, bókavörður hjá Bókasafni Árborgar, í samtali við sunnlenska.is.

Ókeypis þjónusta sem er ætluð til að gleðja
„Við þekkjum það sjálf að búningar eiga það til að safnast fyrir í fataskápum engum til gleði og það gengur auðvitað ekki. Það er miklu betra að þeir nýtist þeim sem á þurfa að halda. Þetta er ókeypis þjónusta og bara ætluð til að gleðja og gera lífið skemmtilegra. Það er ekki þörf á að koma með búninga til þess að fá og öfugt.“

„Við byrjuðum á þessu fyrir öskudaginn í fyrra og stefnum að sjálfsögðu að því að hafa þetta líka fyrir hrekkjavökuna. Þannig að í framtíðinni verður þetta að minnsta kosti tvisvar á ári.“

Búningaskiptisláin opnaði síðastliðinn laugardag og segir Rakel að viðbrögðin hafi verið mjög ánægjuleg. „Það vantar þó alltaf fleiri búninga og við tökum glöð á móti fleirum, bæði búningum og nýjum eigendum,“ segir Rakel að lokum.

Fyrri greinÓviðunandi að ríkið bjóði upp á óvissu varðandi heimavistina
Næsta greinSelfoss valtaði yfir úrvalsdeildarliðið