Sandvíkurtjaldurinn mættur

Sandvíkurtjaldurinn fann einn og einn maðk austan við Tommaskúr í gær. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Góðir Sunnlendingar. Vorið er komið! Sandvíkurtjaldurinn margfrægi í Stóru-Sandvík í Sandvíkurhreppi lenti í Sandvík í gær og er þá staðfest að veturinn er nánast úti hér sunnanlands.

Tjaldurinn er þó einn á ferð þetta vorið því maki hans varð fyrir bíl á Eyrarbakkavegi við Strokkhól síðasta sumar og söng ekki meira eftir það. Það var því aðeins daufara yfir Sandvíkurtjaldinum nú en áður, en verkefni vorsins verður að finna nýjan maka, og ætti það ekki að vefjast fyrir þessum sjarmerandi fugli.

Heyrst hefur til tjalda á flugi yfir Sandvík á liðnum dögum og frændur Sandvíkurtjaldsins eru mættir fyrir nokkru bæði á Stokkseyri, Selfoss og Laugarvatn. Raunar setti tjaldurinn LO-CC Íslandsmet í snemmkomu þegar hún sást í Kjósinni þann 17. febrúar síðastliðinn.

Undanfarin ár hafa fuglaáhugamenn beðið spenntir eftir komu Sandvíkurtjaldsins og hefur komudagur hans verið skrásettur frá árinu 2007. Síðustu ár hefur hann seinkað sér nokkuð og lent um eða eftir 8. apríl. Í fyrra lenti hann 12. apríl.

Annars hefur fuglalífið í Sandvík verið mun rólegra en venjulega að undanförnu og lítið af farfuglum sést í túnum. Einn grágæsahópur hefur stimplað sig inn, stöku álftapör en engir hrossagaukar og fáir skógarþrestir. Samkvæmt heimildum sunnlenska.is úr innsta hring fuglavísindanna skýrist það helst af því að úthagar séu kaldir enda frost nýfarið úr jörðu og auðveldara sé að finna æti meðfram ströndinni.

Fyrri greinFyrstu stig Hamars
Næsta greinEldar besta matinn í núvitundarástandi