Sandvíkurtjaldurinn lentur

Góðir Sunnlendingar. Vorið er komið! Tjaldaparið margfræga sem haldið hefur sig í Stóru-Sandvík í Sandvíkurhreppi síðustu ár lenti í Sandvík síðastliðna nótt og er þá staðfest að veturinn er nánast úti hér sunnanlands.

Tjaldurinn gaf frá sér lendingarhljóð seint í gærkvöldi og í dag var koma hans staðfest þegar hann sást spóka sig í rófugarði Hannesar bónda. Sandvíkurtjaldurinn er einstaklega hávaðasamur, en auðþekkjanlegur á því hversu greindarlegur hann er til augnanna.

Annars hefur fuglalífið í Sandvík verið mjög fjölskrúðugt undanfarnar vikur, allt frá því branduglan sem var daglegur gestur um skeið seint í vetur lét sig hverfa. Nú er mikið af álftum og gríðarlegur fjöldi af gæsum í kornakrinum og er mjög skemmtilegt að fylgjast með tilhugalífinu hjá þeim. Einnig er kominn þröstur í tún en lóan hefur ekki sést, þó að bæði hafi heyrst í lóu og spóa.

Undanfarin ár hafa fuglaáhugamenn beðið spenntir eftir komu Sandvíkurtjaldsins og hefur komudagur hans verið skrásettur í tæpan áratug. Frá árinu 2007 hefur Sandvíkurtjaldurinn lent á bilinu 30. mars til 11. apríl en yfirleitt í kringum 5. apríl.

Að venju tók sunnlenska.is viðtal við tjaldinn þegar hann var lentur og þar rekur hann meðal annars ævintýraför sína yfir hafið frá Bretlandseyjum til Íslands. Hér má hlusta á viðtalið.

Fyrri greinJón Aðalsteinn er nýr kynningarfulltrúi UMFÍ
Næsta greinÁtta mörk í mögnuðu jafntefli