Sandvíkurtjaldurinn er lentur

Góðir Sunnlendingar. Vorið er komið! Tjaldaparið margfræga sem haldið hefur sig í Stóru-Sandvík í Sandvíkurhreppi síðustu ár lenti í Sandvík í morgun og er þá staðfest að veturinn er nánast úti hér sunnanlands.

Nokkrir tjaldar hafa sést í Sandvík á liðnum dögum, enda túnin í Stóru-Sandvík kjörinn millilendingarstaður áður en haldið er ofar í sýsluna. Eins er nokkuð síðan hópar af tjöldum voru komnir á bakka Ölfusár við Selfoss, í fjöruna við Stokkseyri og í Þorlákshöfn.

Það var hins vegar ekki fyrr en í morgun að sjálfur Sandvíkurtjaldurinn heilsaði upp á mannskapinn. Hann er einstaklega hávaðasamur, en um leið auðþekktur á því hversu greindarlegur hann er til augnanna.

Undanfarin ár hafa fuglaáhugamenn beðið spenntir eftir komu Sandvíkurtjaldsins og hefur komudagur hans verið skrásettur síðasta áratuginn. Frá árinu 2007 hefur Sandvíkurtjaldurinn lent á bilinu 30. mars til 11. apríl en yfirleitt í kringum 5. apríl.

Annars hefur verið heldur rólegt yfir fuglalífinu í Sandvík þessa dagana miðað við fyrri ár, stöku gæsapör vappa um í kornakri síðasta sumars og álftin hefur aðeins látið sjá sig. Einnig er kominn þröstur í tún og starrinn hefur verið í árlegri úttekt á þakskeggjum og öðrum glufum í vikunni.