Sandvíkurtjaldurinn er lentur

Sandvíkurtjaldurinn kominn í túnið í Stóru-Sandvík. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Góðir Sunnlendingar. Vorið er komið! Sandvíkurtjaldurinn margfrægi í Stóru-Sandvík í Sandvíkurhreppi lenti í Sandvík í gær og er þá staðfest að veturinn er nánast úti hér sunnanlands.

Undanfarin ár hafa fuglaáhugamenn beðið spenntir eftir komu Sandvíkurtjaldsins og hefur komudagur hans verið skrásettur frá árinu 2007. Síðustu ár hefur hann seinkað sér nokkuð og lent um eða eftir 8. apríl. Í fyrra lenti hann 7. apríl.

Heyrst hefur til tjalda á flugi yfir Sandvík síðustu daga og frændur Sandvíkurtjaldsins eru mættir fyrir nokkru bæði á Stokkseyri, Selfoss og Laugarvatn. Það var hins vegar ekki fyrr en í gærmorgun að sjálfur Sandvíkurtjaldurinn heilsaði upp á mannskapinn. Hann er einstaklega hávaðasamur, en um leið auðþekktur á því hversu greindarlegur hann er til augnanna.

Annars hefur fuglalífið í Sandvík verið með rólegra móti og lítið af farfuglum sést í túnum. Stöku gæsahópar og álftapör nokkrir skógarþrestir en engir hrossagaukar. Samkvæmt heimildum sunnlenska.is úr innsta hring fuglavísindanna skýrist það helst af því að úthagar séu kaldir eftir frostaveturinn mikla og auðveldara sé að finna æti meðfram ströndinni.

Fyrri greinHrefna búin að verpa
Næsta greinMjótt á mununum fyrir lokakvöldið