Sandvíkurtjaldurinn er lentur

Sandvíkurtjaldurinn á túninu í Stóru-Sandvík í morgun. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Góðir Sunnlendingar. Vorið er komið! Tjaldaparið margfræga sem haldið hefur sig í Stóru-Sandvík í Sandvíkurhreppi síðustu ár lenti í Sandvík í morgun og er þá staðfest að veturinn er nánast úti hér sunnanlands.

Nokkrir tjaldar hafa sést í Sandvík á liðnum dögum, enda túnin í Stóru-Sandvík kjörinn millilendingarstaður áður en haldið er ofar í sýsluna. Um síðustu mánaðamót fór tjaldurinn að láta sjá sig á Suðurlandi en það var hins vegar ekki fyrr en í morgun að sjálfur Sandvíkurtjaldurinn heilsaði upp á mannskapinn. Hann er einstaklega hávaðasamur, en um leið auðþekktur á því hversu greindarlegur hann er til augnanna.

Undanfarin ár hafa fuglaáhugamenn beðið spenntir eftir komu Sandvíkurtjaldsins og hefur komudagur hans verið skrásettur frá árinu 2007. Síðustu ár hefur hann seinkað sér nokkuð og lent um eða eftir 8. apríl.

Annars hefur fuglalífið í Sandvík verið fjörugt að undanförnu, hér er mikið af grágæsum, heiðagæsum og blesgæsum auk þess sem helsingjar hafa látið sjá sig. Lóan, hrossagaukurinn og stelkurinn eru löngu komin, skógarþrösturinn syngur sig hásan þessa dagana og starrinn er byrjaður að leita að glufum fyrir hreiður.

Fyrri greinHrímgrund bauð lægst í stækkun Egilsbrautar 9
Næsta greinÞjónusta Strætó skert á landsbyggðinni vegna COVID-19