Sandvíkurskóli verði fræðasetur

Bæjarráð Árborgar samþykkti á síðasta fundi sínum að skoða möguleika á því að Sandvíkurskóli á Selfossi verði gerður að þekkingar- og fræðasetri næsta haust.

Helgi Sigurður Haraldsson, áheyrnarfulltrúi, B-lista í bæjarráði, lagði fram tillöguna sem samþykkt var samhljóða.

Vallaskóli er nú í tveimur byggingum, Sandvík og Sólvöllum. Eins og sunnlenska.is hefur greint frá stendur til að færa alla kennslu í Vallaskóla að Sólvöllum haustið 2011. Þegar kennslu verður hætt í Sandvík losnar þar mikið húsnæði.

Í greinargerð með tillögu bæjarráðs kemur fram að hægt verði að sameina þær stofnanir sem stunda m.a þekkingu og fræðslu, ásamt sambærilegu starfi. T.d. Fræðslunet Suðurlands, Háskólafélag Suðurlands, Markaðsstofu Suðurlands, Héraðsskjalasafn Árnesinga, Atvinnuþróunarfélag Suðurlands og fleiri sambærilegar stofnanir.