Sandra nýr oddviti Okkar Hveragerði

Frambjóðendur Okkar Hveragerði með Söndru Sigurðardóttur fremsta í flokki. Ljósmynd/Aðsend

Framboðslisti Okkar Hveragerði fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 14. maí var kynntur á fjölmennum fundi á Rósakaffi í Hveragerði í gær.

Sandra Sigurðardóttir, íþrótta- og heilsufræðingur og athafnakona kemur ný inn í efsta sæti listans. Í öðru sæti er Njörður Sigurðsson bæjarfulltrúi, sagnfræðingur og aðstoðarþjóðskjalavörður í Þjóðskjalasafni Íslands. Okkar Hveragerði fékk tvo bæjarfulltrúa í kosningunum 2018.

Okkar Hveragerði er óháð bæjarmálafélag skipað íbúum sem hafa áhuga á bæjarmálum í Hveragerði og bera velferð íbúa fyrir brjósti. Árið 2018 hlaut Okkar Hveragerði 33% atkvæða og tvo bæjarfulltrúa.

„Á framboðslistanum eru íbúar með fjölbreyttan bakgrunn, menntun og reynslu. Okkar Hveragerði leggur áherslu á aukið gagnsæi í ákvarðanatöku bæjarins, vandaða stjórnsýslu, öflugt atvinnulíf, meira rými fyrir íbúalýðræði, styrkja stöðu minnihluta- og jaðarsettra hópa, uppbyggingu húsnæðis, efla gott íþróttastarf sem allir aldurshópar geta haft greiðan aðgang að óháð stéttastöðu, ríka áherslu á skóla- og velferðarmál og að bæjarstjóri verði ráðinn á faglegum forsendum,“ segir í tilkynningu frá framboðinu.

Listann skipa:
1. Sandra Sigurðardóttir, íþrótta- og heilsufræðingur og athafnakona
2. Njörður Sigurðsson, sagnfræðingur og bæjarfulltrúi
3. Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir, lögmaður og söngkona
4. Hlynur Kárason, húsasmíðameistari og varabæjarfulltrúi
5. Atli Viðar Þorsteinsson, verkefnastjóri og plötusnúður
6. Sigríður Hauksdóttir, ráðgjafi í félagsþjónustu
7. Jóhann Karl Ásgeirsson, háskólanemi
8. Valgerður Rut Jakobsdóttir, náms- og starfsráðgjafi
9. Eygló Huld Jóhannesdóttir, deildarstjóri í heimaþjónustu og sjúkraliði
10. Eydís Valgerður Valgarðsdóttir, nemi
11. Páll Kjartan Eiríksson, öryrki
12. Guðjóna Björk Sigurðardóttir, viðskiptafræðingur
13. Kristján Björnsson, húsasmíðameistari
14. Anna Jórunn Stefánsdóttir, talmeinafræðingur

Fyrri greinArna Ír í oddvitasætinu hjá Samfylkingunni í Árborg
Næsta greinHrunamenn kvöddu Árna Þór með sigri