Sandra nýr framkvæmdastjóri þingflokks Viðreisnar

Þingflokkur Viðreisnar hefur ráðið Söndru Sigurðardóttur, forseta bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar, til starfa sem framkvæmdastjóra þingflokksins.

Sandra er menntuð íþrótta- og heilsufræðingur ásamt því að vera með MBA gráðu, en hún hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu. Hún hefur starfað sem þjálfari, við leikskóla og grunnskóla, sinnt eigin rekstri ásamt víðtækri reynslu af stjórnun í íþróttahreyfingunni. Samhliða störfum sínum er Sandra bæjarfulltrúi og forseti bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar og varaþingmaður Viðreisnar í Suðurkjördæmi. Síðustu misseri hefur Sandra starfað sem framkvæmdastjóri HK í Kópavogi en hún mun hefja störf á Alþingi á næstu vikum.

„Ég er full tilhlökkunar fyrir þessu mikilvæga verkefni. Það er verkefni okkar í Viðreisn að hlusta á fólkið í landinu, eiga samtöl í augnhæð og vinna af heilindum í þeirra þágu. Ég hlakka til að vinna með þingmönnum okkar að því markmiði og efla flokkinn um land allt,“ segir Sandra.

Fyrri greinÁ-listinn býður fram í Rangárþingi ytra
Næsta greinMenningarviðurkenning Árborgar endurvakin