Sandra Dís ráðin sviðsstjóri í Ölfusinu

Sandra Dís Hafþórsdóttir hefur verið ráðin sviðsstjóri fjármála, stjórnsýslu og menningarsviðs Sveitarfélagsins Ölfuss.

Níu umsækjendur voru um stöðuna og voru fjórir þeirra boðaðir í viðtal. Hagvangur sá um umsóknarferlið.

Tillaga um ráðningu Söndru Dísar mun liggja fyrir á næsta fundi bæjarráðs, þótt sjálfsagt sé þar um formsatriði að ræða enda fulltrúar bæði meiri- og minnihluta þátttakendur í ákvörðuninni.

Sandra Dís er fædd árið 1974 og gift Reyni Jóhannssyni fangaverði og húsasmiði. Þau eiga 2 börn, 11 og 14 ára. Sandra Dís er lærð viðskiptafræðingur og hefur starfað sem fjármálastjóri Árvirkjans á Selfossi síðustu ár.  Áður starfaði hún til að mynda hjá KPMG og Kaupþingi.  Hún hefur auk þess ríka þekkingu af sveitarstjórnarmálum.  Sat í bæjarstjórn Árborgar í tvö kjörtímabil og sinnti þar fjölmörgum trúnaðarstörfum.

Sem sviðsstjóri mun Sandra Dís taka þátt í yfirumsjón með stjórnsýslu, fjármálum og starfsmannahaldi sveitarfélagsins og stofnana þess, auk menningarmála í víðasta skilningi þess orðs. Hún verður staðgengill bæjarstjóra og hefur ásamt aðalbókara og bæjarstjóra yfirumsjón með fjármálastjórnun bæjarins og stofnana.

Sandra mun hefja störf innan skamms.

Fyrri greinMetvelta í marsmánuði
Næsta greinAtli Ævar áfram á Selfossi