Sandra Brá ráðin sveitarstjóri

Sveitarstjórn Skaftárhrepps samþykkti á síðasta fundi sínum að ráða Söndru Brá Jóhannsdóttur, á Breiðabólsstað, sveitarstjóra út kjörtímabilið.

Sextán sóttu um stöðuna og fór Intellecta ráðningarskrifstofa í gegnum umsóknirnar.

Sandra Brá hefur starfað sem verkefnisstjóri ferðaþjónustuverkefnisins Friður og frumkraftar í Skaftárhreppi.

Meirihluti sveitarstjórnar samþykkti að fela oddvita og varaoddvita að ganga til samninga við Söndru Brá en fulltrúar Ó-listans sátu hjá við afgreiðsluna.

Í bókun Ó-listans segir að hjásetan snúi alfarið að vinnubrögðum meirihluta sveitarstjórnar, þar sem fyrri sveitarstjóra hafi verið sagt upp án samráðs við Ó-listann og án viðhlítandi skýringa. Hjásetan hafi ekkert með afstöðu Ó-listans til verðandi sveitarstjóra að gera.

Fyrri greinSogsbrú lokuð fram að hádegi
Næsta greinVerkfall samþykkt með miklum meirihluta