Sandfangarinn hefur sannað sig

Sandfangarinn sem byggður var í Víkurfjöru í Mýrdal á síðasta ári hefur þegar sannað gildi sitt að mati Siglingastofnunar og heimamanna.

„Það er ótrúlegt að sjá hvað sandfangarinn hefur safnað mikilli fjöru vestan við sig. Austan við hann er aftur á móti að tapast land og þess vegna þarf annan grjótgarð út í sjó austar í Víkurfjöru til að stoppa landbrotið,“ segir Jónas Erlendsson, bóndi í Fagradal, sem tók meðfylgjandi mynd í fjörunni.

Í minnisblaði frá forstöðumanni hafnasviðs Siglingastofnunar til sveitarstjórnar Mýrdalshrepps segir að hefði sandfangarans ekki notið við í þeim brimsköflum sem dunið hafa á ströndinni að undanförnu hefði að líkindum orðið talsvert rof sunnan byggðarinnar.

Sveitarstjórn telur að nú þurfi að hefja undirbúning að næsta áfanga í strandvörninni til að tryggja að ekki verði frekara landbrot sunnan við byggðina í Vík.

Að sögn Ásgeirs Magnússonar, sveitarstjóra Mýrdalshrepps, verður þó beðið í nokkur misseri enn til að fullmeta reynsluna af varnargarðinum.

Fyrri greinSkoða sölu á Víkurprjóni
Næsta greinEkið utan í bíl við Bónus