Sandburðurinn kom hafnarstjóranum ekki á óvart

,,Ég væri ekki hissa ef Herjólfur sigldi hingað yfir vetrarmánuðina,“ segir Indriði Kristinsson, hafnarstjóri í Þorlákshöfn.

Herjólfur sigldi til Þorlákshafnar í síðustu viku á meðan unnið var að dýpkun Landeyjahafnar. Indriði segir að ástandið í Landeyjahöfn hafi ekki komið sér á óvart en í Þorlákshöfn hefðu menn í gegnum tíðina orðið áþreifanlega varir við þann mikla sandburð sem er með ströndinni.

Indriði telur þó of snemmt að segja til um hvort Landeyjarhöfn yrði aðeins opin yfir sumar­mánuð­ina. Sem kunnugt er þá sagði Vega­gerðin upp samningi við Þorlákshöfn um siglingar Herjólfs þangað en í samningnum fólst að Herjólfur fengi verulegan afslátt af hafnargjöldum. Að sögn Indriða greiðir Herjólfur nú sömu gjöld og aðrir og engar viðræður hafa farið fram um nýjan samning.