Samstarf um framleiðslu græns vetnis til útflutnings frá Þorlákshöfn

Þorlákshöfn. Ljósmynd/Baldvin Agnar Hrafnsson

Sveitarfélagið Ölfus, EFLA verkfræðistofa og Summa rekstrarfélag hafa sammælst um samstarf um mögulega atvinnuþróun í Ölfusi. Samstarfið felst í því að meta hagkvæmni á uppsetningu á verksmiðju til rafgreiningar vatns, framleiðslu vetnis, vetnisafurða og súrefnis ásamt tengdri starfssemi.

Í sameiginlegri fréttatilkynningu þessara aðila segir að verksmiðja til rafgreiningar væri í nágrenni Þorlákshafnar og til viðmiðunar er gert ráð fyrir framleiðslu á um 35 þúsund tonnum af vetni á ári. Það eru nokkrar leiðir til að framleiða vetni en rafgreining með raforku úr endurnýjanlegum orkugjöfum, líkt og væri raunin í Ölfusi, er sú umhverfisvænsta. Vísað er til vetnis sem er framleitt á þennan hátt sem græns vetnis.

Stærstur hluti vetnisins yrði fluttur með sérútbúnu tankskipi beint frá Þorlákshöfn til Þýskalands en súrefnið myndi fara í sölu innanlands ásamt hluta vetnisins.

Grænt vetni í lykilhlutverki í baráttu við hlýnun jarðar
Vetni er til margra hluta nýtilegt hvort sem það er fljótandi eða í formi gass. Vetni má breyta í rafmagn eða aðra tegund eldsneytis s.s. ammoníak. Um það bil 70 milljónir tonna af vetni eru þegar framleiddar á heimsvísu á hverju ári, m.a. til notkunar við olíuhreinsun, framleiðslu ammoníaks, stálframleiðslu, framleiðslu efna og áburðar, matvælavinnslu, málmvinnslu og fleira. Lítill hlut af vetnisframleiðslu heimsins í dag flokkast hins vegar sem grænt vetni.

Lykilhlutverk græna vetnisins felst í því að vera raunhæfasta leiðin til að leysa af hólmi hefðbundna orkugjafa sem losa koldíoxíð í vissri starfsemi. Þetta á t.d. við um flug, siglingar, þungaflutninga á landi, í steypu- og stálframleiðslu ásamt fleiru. Framleiðsla og notkun græns er því mikilvægt skref í í áttina að því að uppfylla markmið Parísarsamkomulagsins og sporna gegn hlýnun jarðar.

Alþjóðlegt verkefni á fyrstu stigum
Verkefnið er á frumstigi og er gert ráð fyrir því að fleiri samstarfsaðilar muni koma að því þegar fram líða stundir, erlendir og innlendir.  Viðræður eru þegar hafnar við hugsanlega kaupendur græns vetnis ásamt því að skoðun er hafin á ýmsum útfærslum og tæknilausnum sem lúta að öflun orku, framleiðslu vetnis og súrefnis, geymslu og flutningi og fleiri þáttum.

Í nýrri orkustefnu Atvinnuvega – og nýsköpunarráðuneytisins til ársins 2050 er skýr framtíðarsýn um sjálfbæra orkuframtíð. Markmið stefnunnar eru metnaðarfull en m.a. er stefnt að því að orkuskiptum á landi, á hafi og á lofti verði lokið að fullu innan 30 ára og að öll orkuframleiðsla sé af endurnýjanlegum uppruna. Sveitafélagið Ölfus er ríkt af jarðvarma og ferskum grunnvatnsstraumum ásamt því að landrými er mikið sem opnar möguleika á beislun vindorku. Sveitafélagið Ölfus hefur því mikilvægu hlutverki að gegna í þeim aðgerðum sem ráðast þarf í til að markmiðum orkustefnunnar verði náð. Áhersla sveitastjórnar er að taka virkan þátt í stýringu orkunýtingar í sveitafélaginu og hefur tekið fjölmörg skref í þá átt að tryggja ábyrga nýtingu í þágu sveitarfélagsins, íbúa þess og fyrirtækja starfandi þar.

Ölfus Cluster hefur það markmið að vinna að uppbyggingu á fjölbreyttu atvinnulífi í Ölfusi, sveitafélaginu og íbúum þess til heilla. Eitt að verkefnum ÖC hefur verið að greina orkuþörf og orkuöflun fyrir þá gríðarlegu uppbyggingu sem er að raungerast í sveitafélaginu. Verkefnið fellur því vel að tilgangi og verkefnum félagsins og mun ÖC fara fyrir verkefninu fyrir hönd Sveitafélagsins Ölfus.

Í þessu verkefni er Efla fyrst og fremst í ráðgjafarhlutverki varðandi, umhverfis-, öryggis- og tæknimál sem og á sviði viðskiptaþróunar. Verkfræðistofan með rúmlega 400 starfsmenn hefur á síðustu 5 árum undirbúið sig undir orkuskiptin með ýmsum hætti. Meðal annars hefur mikillar fagþekkingar verið aflað á ýmsum sviðum rafeldsneytisframleiðslu, s.s. rafgreiningartækni, framleiðslu ammóníaks og geymslu og flutning vetnisafurða. Byggt hefur verið upp þétt samstarfsnet reynslumikilla fyrirtækja varðandi ýmsan framleiðslubúnað en einnig við mögulega fjárfesta og kaupendur afurðanna.

Fyrri greinByggðaráð segir að nú sé nóg komið
Næsta greinAppelsínugul viðvörun: Ekkert ferðaveður