Samstaða um nauðsyn smærri og hagkvæmari íbúða

Lækka þarf lóðaverð, nýta fjárfestingu í innviðum, einfalda byggingareglugerð, stytta afgreiðslutíma leyfa og lækka fjármagnskostnað til þess að hægt sé að byggja vandaðar og hagkvæmar íbúðir með sem hröðustum hætti.

Þetta var á meðal þess sem fram kom í máli gesta á upphafsfundi þriggja ráðuneyta um hagkvæmar húsnæðislausnir sem haldinn var í gærmorgun undir yfirskriftinni „vandað, hagkvæmt, hratt.“ Samstaða var meðal fundarmanna um nauðsyn smærri og hagkvæmari íbúða. Mikil eftirspurn er eftir slíkum íbúðum, ekki aðeins hjá ungu fólki sem hefur hug á að leigja eða kaupa íbúð heldur einnig hjá eldra fólki sem vill minnka við sig.

Að upphafsfundinum stóðu ráðherrar húsnæðismála, umhverfismála og iðnaðar ásamt undirstofnunum og Samtökum iðnaðarins og mættu á þriðja hundrað manns sem flestir koma að byggingu húsnæðis á einhverju stigi. Fulltrúar sveitarfélaga, stofnana og fyrirtækja víða að af landinu sóttu fundinn.

Verkefnið „Vandað, hagkvæmt, hratt“ byggir á samþykkt ríkisstjórnarinnar um aðgerðir á sviði húsnæðismála, í tengslum við gerð kjarasamninga sl. vor. Meðal næstu áfanga í verkefninu er klasi á sviði byggingarlausna, arkitektasamkeppni og sýning á mjög hagkvæmum fullbyggðum íbúðum.

Fyrri greinGuðrún nýr forseti kvenfélagasambandsins
Næsta greinSnjómokstursbílar búnir vængjum