Samstaða um forgangsröðun í þágu umferðaröryggis

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, hóf í dag sérstaka umræðu um umferðaröryggismál á Alþingi.

Kom þar fram að kostnaður samfélagsins vegna umferðarslysa væri mikill, bæði félagslega og fjárhagslega. Á síðasta ári létust 15 í umferðinni, 177 slösuðust alvarlega og 1040 minniháttar eða 1232 einstaklingar. Á sama tíma urðu 12.300 manns fyrir áfalli, þ.e. aðstandendur þessara einstaklinga. Útreikningar sýna að þetta eru á milli 40 og 50 milljarðar í peningum fyrir utan samfélagslega þáttinn sem slysin kosta.

Almenn samstaða var meðal þingmanna að auka þyrfti fjármagn til samgöngumála með áherslu á umferðaröryggi og að það mætti gera með aukinni forgangsröðun við gerð fjárlaga og nýrra leiða í fjármögnun, til dæmis í samvinnu við einkaaðila og lífeyrissjóði. Þá voru líka til umræðu aðgerðir í umferðaröryggismálum sem þyrftu ekki að kosta mikið eins og betri umferðarmerkingar og aukið eftirlit með því að flytja umferðareftirlit Samgöngustofu til lögreglunnar, en það myndi margfalda sýnileika lögreglu.