Samruni ætti að flýta fyrir framkvæmdum

Eigendur húseigna við Suðurlandsveg 1-3 á Hellu hafa komist að samkomulagi um að samrunaferli í þeim tilgangi að hægara verði að fjármagna frekari framkvæmdir á nýbyggingunni sem risin er á milli húsanna.

Að sögn Gunnsteins Ómarssonar sveitarstjóra eru lögfræðingar að setja slíkan samruna upp og verðleggja eignirnar sem lagðar verða inn í nýtt hlutafélag. Í framhaldinu þarf að leggja fram hluthafasamkomulag um rekstur hússins.

Segir Gunnsteinn að þegar þetta liggi fyrir verði farið í útlistun á því hvernig klára megi fjármögnun og síðar frágang húsnæðisins. Kröfuhafar og lánardrottnar hafa verið upplýstir um gang mála.

Upprunalega átti starfsemi í húsinu að hefjast í júní í fyrra en byggingin hefur verið kostnaðarsöm og fjármögnun tafist ítrekað. „Við vonumst til að með þessu finnist farsæl lausn,“ segir Gunnsteinn.