Samningur um Fuglafriðlandið endurnýjaður

Á Degi umhverfisins, sl. sunnudag, endurnýjaði Sveitarfélagið Árborg samning sinn við Fuglavernd um umsjón og mótun Fuglafriðlandsins í Flóa.

Fuglafriðlandið er orðið þekkt hjá fuglaskoðurum víðsvegar um heiminn og á sumrin er stöðugur straumur fuglaáhugamanna sem gera sér ferð þangað að njóta fuglanna og umhverfisins.

Hafist var handa við gerð fuglaskoðunarskýlis fyrir nokkrum árum og var lokið við það í fyrra. Jóhann Óli vígði skýlið formlega við athöfnina á sunnudag.

Framtíðaráform fyrir Friðlandið er í mótun og er stefnt að því að bjóða þar uppá fuglaskoðun fyrir almenning, fuglaljósmyndara og fuglaáhugafólk. Jafnfram verður haldið áfram að endurheimta votlendi á svæðinu, en endurheimtuaðgerðir hófust árið 1997. Þær hafa tekist mjög vel; fuglalíf hefur tekið kipp á endurheimtu svæðunum og sem dæmi má nefna, að lómavarp hefur margfaldast á þessum tíma.

Ragnheiður Hergeirsdóttir bæjarstjóri og Jóhann Óli Hilmarsson, formaður Fuglaverndar, skrifaðu undir samninginn. Samningur um samstarf í Fuglafriðlandi var fyrst undirritaður á Eyrarbakka 1997.