Samningar langt komnir

Samningaviðræður hafa staðið yfir undanfarið milli Bláskógabyggðar og ríkisins um að sveitarfélagið taki húsnæði Héraðsskólans á Laugarvatni á leigu af ríkinu.

Rætt er um að Bláskógabyggð leigi húsnæðið í heild sinni af ríkinu og áframleigi síðan Héraðsskólahúsið til eins eða fleiri aðila sem geti hugsað sér að reka starfsemi þar.

Samkomulag milli Bláskógabyggðar og ríkisins var nánast frágengið síðastliðið vor en þá hljóp snuðra á þráðinn. Samningar hófust aftur með haustinu á grunni fyrri samninga og hafa aðilar nálgast hvorn annan umtalsvert.

Að sögn Valtýs Valtýssonar sveitarstjóra þarf frekari skilgreiningar inn í samninginn en samning­ferlið sé í ágætis farvegi. Stefnt er að ljúka endanlega þeirri vinnu í þessum mánuði og að samningurinn verði tekinn til afgreiðslu á sveitarstjórnarfundi þann 3. febrúar.