Samkaup styrkti FOMEL

Foreldrafélag Menntaskólans að Laugarvatni (FOMEL) stóð fyrir námskeiði fyrir nemendur skólans nýverið, þar sem þjálfarar frá Dale Carnegie fjölluðu um sjálfsmynd, sjálfstraust, þægindarammann og margt fleira.

Meðal umfjöllunarefnis námskeiðsins var hversu unglingar eiga oft í mikilli baráttu með sjálfsmynd sína og sjálfstraust þar sem þeir eru að máta sig við umhverfi sitt, leita að styrkleikum sínum til að efla þá og átta sig á veikleikum sínum og takast á við að styrkja þá.

Námskeiðið féll í góðan jarðveg og varð örugglega til þess að einhverjir þátttakendanna áttuðu sig á ýmsu í eigin fari sem er hreint ekki erfitt að takast á við að bæta.

Verslunin Samkaup hf. styrkti FOMEL um eitthundrað þúsund krónur vegna námskeiðsins og vill Guðni koma á framfæri þakklæti stjórnar fyrir stuðninginn.

„Við lítum á þetta sem uppbyggilegt fyrir unga fólkið sem er að fóta sig í lífinu og hjálpar þeim að standa á eigin fótum. Jafnframt lítum við á þetta sem forvarnarstarf,“ segir Guðni.

Fyrri greinLjóðmæli Helgu á Grjótá
Næsta greinMið-Ísland skemmtir í Þorlákshöfn