Samkaup setur á laggirnar jafnréttisráð

Samráð, jafnréttisráð Samkaupa. Ljósmynd/Aðsend

Sérstakt jafnréttisráð Samkaupa, Samráð, var sett á laggirnar á jafnréttisdögum fyrirtækisins sem fram fóru í vikunni. Alls buðu 20 einstaklingar sig fram og sitja nú öll í ráðinu, sem miðar að því að skapa vettvang fyrir starfsfólk til að hafa áhrif á vinnustaðinn, bæði inn á við og út á við. Þá hafa meðlimir ráðsins umboð til að taka á málum sem koma upp er varða starfsfólk eða viðskiptavini auk þess sem þeir koma til með að sjá um fræðslu.

Um var að ræða tveggja daga fyrirlestra- og fræðsluröð, sem öllu starfsfólki Samkaupa bauðst að sitja en fyrri daginn héldu Samtökin ‘78, Þroskahjálp og Mirra rannsókna- og fræðslusetur fyrir erlent starfsfólk , fyrirlestra og seinni daginn var Sóley Tómasdóttir með erindi um jafnrétti og fjölbreytileika á vinnustöðum auk þess sem unnin voru verkefni og jafnréttisráð sett saman.

Þverskurður fyrirtækisins
„Það er frábært að sjá fjölbreytnina í ráðinu en það er óhætt að segja að um þverskurð fyrirtækisins sé að ræða en starfsfólk úr framkvæmdastjórn, verslunarstjórar, verslunarfólk og mannauðsráðgjafar munu láta til sín taka innan Samráðs. Þetta er hópur hugsjónafólks sem við treystum til að taka verkefnið áfram af krafti. Við finnum fyrir mikilli vakningu í samfélaginu og starfsfólk Samkaupa er upp til hópa áhugasamt um hvernig megi stuðla að auknu jafnrétti allra hópa innan vinnustaðarins. Það er dýrmætt fyrir fyrirtæki að starfsfólk láti sig jafnréttismál varða og við bindum miklar vonir við að jafnréttisráð Samkaupa hafi ekki einungis áhrif innan veggja félagsins heldur einnig út í samfélagið okkar, segir Sandra Björk Bjarkadóttir, mannauðsráðgjafi.

Samkaup reka yfir 60 verslanir víðsvegar um landið undir vörumerkjunum Nettó, Krambúðin, Kjörbúðin og Iceland. Alls starfa um 1.300 manns hjá fyrirtækinu í fullu starfi eða hlutastarfi.

Fyrri greinÍslenskur landbúnaður 2022 í Höllinni
Næsta greinJóhanna ráðin sviðsstjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs