Samið við Laufið um sjálfbærniráðgjöf

Fjóla Kristinsdóttir bæjarstjóri og Raquelita Rós Aguilar, framkvæmdastjóri Laufsins, handsala samninginn. Ljósmynd/Árborg

Sveitarfélagið Árborg hefur gert samstarfssamning við Laufið, fyrstu grænu íslensku upplýsingaveituna. Samningurinn felur í sér aðgang að hugbúnaði Laufsins og greiningum auk aðkomu sjálfbærniráðgjafa Laufsins við fræðslu, innleiðingu og ráðgjöf varðandi sjálfbærni.

Farið verður í kortlagningu á stöðu mála hjá stofnunum og skólum á vegum sveitarfélagsins auk þess að útvega Laufinu aðstöðu fyrir kynningarfundi með áhugasömum fyrirtækjum í Árborg sem vilja leggja áherslu á sjálfbæra þróun í starfsemi sinni og miðla á gagnsæjan hátt upplýsingum um sjálfbærni, sér og öðrum til hagsbóta.

Markmið Laufsins er að valdefla neytendur og gefa þeim kost á að taka upplýstar ákvarðanir um neyslu sína eftir því hversu vel stofnanir og fyrirtæki eru að standa sig í sjálfbærni og samfélagslegri ábyrgð.

Fyrri greinBjartmar á vortónleikum Karlakórs Hveragerðis
Næsta greinNíu ára hlaupari setti HSK met