Samið við Eykt um byggingu hjúkrunarheimilis

Fyrstuverðlaunatillöguna áttu Urban arkitektar ehf. og LOOP architects aps.

Framkvæmdasýsla ríkisins og Sveitarfélagið Árborg hafa samþykkt að ganga til samninga við Eykt ehf um byggingu hjúkrunarheimilis sem rísa mun á Selfossi.

Bæjarráð Árborgar samþykkti erindi frá framkvæmdasýslunni á fundi í október, þar sem þetta var lagt til. Um leið bókaði bæjarráð og fagnaði að loks skuli komið að framkvæmdum um byggingu hjúkrunarheimilis á Selfossi.

Fyrsta skóflustungan að hjúkrunarheimilinu verður að öllum líkindum tekin síðar í nóvember.

Eykt var lægstbjóðandi í verkið og hljóðaði tilboð fyrirtækisins upp á tæpar 2.226 milljónir króna. Ríkissjóður og Framkvæmdasjóður aldraðra munu greiða 84% af kostnaðinum en Árborg 16%. Hlutur Árborgar er því um 356 milljónir króna.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdum við hjúkrunarheimilið verði lokið sumarið 2021 og að hægt verði að taka það í notkun með haustinu 2021.

Fyrri greinTíu öflugar hraðhleðslustöðvar settar upp á Suðurlandi
Næsta greinMike Phillips til Hamars