Samið um umhverfisvottun miðbæjarkjarnans á Selfossi

(F.v.) Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri JÁVERK, Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, Leó Árnason, framkvæmdastjóri Sigtúns þróunarfélags og Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Árborgar. Ljósmynd: dfs.is/gpp

Sigtún þróunarfélag og Umhverfisstofnun hafa gert með sér samning sem gengur út á að byggingar nýs miðbæjarkjarna á Selfossi verði umhverfisvottaðar með Svansvottun.

Samningur um þessa framtíðarsýn var undirritaður á Selfossi í dag. Markmið samningsins er að skilgreina þær meginkröfur sem byggingarnar verða að uppfylla til að teljast vottunarhæfar sem og hlutverk samningsaðila í ferlinu. Þetta er í fyrsta skipti sem undirritað er samkomulag um Svansvottun klasa húsa hér á landi.

„Með verkefninu sem snýr bæði að heilsu fólks sem mun starfa og búa í þessum húsum sem og í heildrænu umhverfislegu tilliti er um nýtt og spennandi skref að ræða. Ég fagna að sveitarfélagið Árborg og Sigtún Þróunarfélag sýni þetta frumkvæði. Það er til mikillar eftirbreytni,“ segir Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar.

Minnka umhverfisáhrif framkvæmdanna
Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna og hefur svansvottun verið í mikilli sókn hin síðari ár, ekki síst hér á landi. Mikil umhverfisáhrif fylgja byggingargeiranum, en með Svansvottun húsnæðis er markvisst unnið að því að minnka umhverfisáhrif framkvæmdanna og því voru viðmið Svansins fyrir nýbyggingar þróuð 2003. Tvær byggingar hafa nú þegar hlotið svansvottun hér á landi og hefur stofnunin í kjölfarið orðið vör við vitundarvakningu í málaflokknum. Í dag ná viðmið Svansins fyrst og fremst til íbúðarhúsnæðis og skólabygginga og eru því ekki til viðmið fyrir allar tegundir bygginga.

UST rýnir í gæðaferla og notkun byggingarefna
Nýr miðbæjarkjarni Selfoss samanstendur af blandaðri byggð þar sem gert er ráð fyrir íbúðarhúsnæði í bland við atvinnuhúsnæði. Þær byggingar verkefnisins sem falla ekki undir núverandi viðmið Svansins fyrir nýbyggingar eru aðallega hótel, skrifstofur og þjónustubyggingar. Uppbyggingin mun hins vegar fylgja viðmiðum Svansins fyrir allar nýbyggingar verkefnisins en vottunin byggist á tilteknum fjölda skyldukrafna auk lágmarksfjölda stiga. Ekki eru gefnar einkunnir líkt og í öðrum vottunarkerfum sem þekkjast hérlendis því ef byggingin stenst allar skyldukröfur, þ.m.t. lágmarks fjölda stiga telst hún Svansvottuð. Á byggingartíma munu starfsmenn Umhverfisstofnunar m.a. rýna gæðaferla, hönnun, notkun byggingaefna og efnavöru og fylgjast með úrgangsflokkun.

Leó Árnason, framkvæmdastjóri Sigtúns þróunarfélags, segir samninginn stóran áfanga í því markmiði að gera miðbæinn eins umhverfisvænan og unnt er.

„Við erum einnig að vinna að því að votta deiliskipulagið með Breeam vistvottun og stefnum að því að allur rekstur í miðbænum verði umhverfisvottaður með Svaninum eða öðru viðeigandi umhverfismerki,” segir Leó.

Jafnframt undirritaði Sigtún þróunarfélag í dag viljayfirlýsingu við JÁVERK, sem reisir húsin í miðbænum, um innleiðingu umhverfisstjórnunarkerfis og verkferla sem tryggi að verkframkvæmd og efnisnotkun uppfylli kröfur Svansins fyrir nýbyggingar.

Fyrri greinÞórsarar sigruðu á heimavelli
Næsta greinÁstusjóður gaf nýjan dróna á Hellu