Samið við Gljástein um umsjón með Hólaskógi

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur ákveðið að semja við Gljástein um umsjón með Hólaskógi á Gnúpverjaafrétti.

Gljásteinn er í eigu hjónanna Lofts Jónasarsonar og Vilborgar Guðmundsdóttur í Myrkholti í Biskupstungum. Auk þess að reka hestaleigu sjá þau um rekstur Fremstavers, Árbúða og Gíslaskála á Kili auk Skálans í Myrkholti.

Vilborg segir umsvifin aukast jafnt og þétt, í fyrra reistu þau söluskála við Árbúðir sem opnaður verður í sumar þegar Kjalvegur opnar og nú gera þau ráð fyrir að hafa þrjá viðbótarstarfsmenn í Gíslaskála, Árbúðum og Hólaskógi yfir sumarið til að þjónusta skálana.