Samið um seyrulosun

Hreinsitækni ehf. bauð lægst í sameiginlegt útboð Bláskógabyggðar og Grímsnes- og Grafningshrepps á seyrulosun til næstu þriggja ára.

Kostnaðaráætlun var kr. 73.377.409 en tilboð Hreinsitækni ehf. hljóðaði upp á kr. 68.082.000. Holræsa- og stífluþjónusta Suðurlands ehf., sem hefur séð um seyrulosun til þessa, bauð kr. 76.252.200 en hæsta tilboðið kom frá Bólholti ehf. sem bauð kr. 136.891.280.

Hörður Óli Guðmundsson, varaoddviti Grímsnes- og Grafningshrepps, segir að ákveðið hafi verið að taka tilboði lægstbjóðanda. Sveitarfélögin séu ákaflega ánægð með samstarfið vegna seyrulosunarinnar og þau telji sig njóta hagræðis af því.