Samgöngumál felld undir sveitar­félögin

Samgöngu­ráðu­neyti og Vega­gerð­in hafa lagt til að Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, SASS, verði falin umsjón og rekstur almenn­ings­sam­gangna á starfssvæði sam­tak­­anna.

Er gert ráð fyrir að sveitar­félög­in taki yfir ábyrgð og skipu­lagið á málaflokknum og er Suður­land fyrsti landshlutinn sem tekst á við verkefnið.

Fyrst í stað falla sér­leyfisbíla- og strætó­sam­göngur undir þetta verkefni og síðar er gert ráð fyrir að skóla­akst­ur verði þar einnig. Þá má geta að siglingar Herjólfs falla þarna und­ir. Er miðað við að SASS taki yfir sam­göng­urnar 1. janúar næst­komandi.

Að sögn Elfu Daggar Þórðar­dótt­ur, sem situr í starfshópi SASS um málið, er með þessu verið að færa ákvörðunarvaldið út til þeirra sem nýta þjónustuna.

,,Það er von manna að með því verði hún skilvirkari og hagkvæmari,” sagði Elfa Dögg en allt það fjármagn sem varið hefur verið til þessa málaflokks mun nú fara í gegnum SASS. Því er gert ráð fyrir að starfseminni verði stýrt innan SASS en Elfa Dögg tók fram að ekki væri ætlunin að ráða fólk sérstaklega til þessa verkefnis.