Samfylkingin stærst í Suðurkjördæmi

Samfylkingin nýtur mests fylgis í Suðurkjördæmi í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup sem tekinn var í desember. Fylgi Samfylkingarinnar er 26,9 prósent og þar á eftir kemur Miðflokkurinn með 24,4 prósent.

Fylgi Miðflokksins dalar talsvert á milli mánaða en hann var með 30,8 prósent í Þjóðarpúlsi nóvembermánaðar.

Sjálfstæðisflokkurinn er með 22,1 prósent fylgi og bætir við sig á milli mánaða. Þar á eftir kemur Framsóknarflokkurinn með 11,3 prósent sem er talsverð aukning á milli mánaða.

Flokkur fólksins er með 6,2 prósent og Viðreisn með 5,3 prósent og hvorugur flokkurinn næði inn kjördæmakjörnum þingmanni ef þetta yrðu niðurstöður kosninga.

Aðrir flokkar eru með mun minna fylgi; Vinstri grænir, Píratar, Sósíalistaflokkurinn og aðrir eru undir 2,0 prósentum.

Yrðu þetta niðurstöður Alþingiskosninga fengju Samfylkingin og Miðflokkurinn 3 kjördæmakjörna þingmenn í Suðurkjördæmi, Sjálfstæðisflokkurinn 2 og Framsókn 1.

Gallup fékk 476 svör frá kjósendum í Suðurkjördæmi í netkönnun sem gerð var dagana 1.–28. desember og birtir sunnlenska.is niðurstöðurnar úr Suðurkjördæmi í samstarfi við RÚV. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.

Fyrri greinSamfylkingin býður fram í Ölfusinu
Næsta greinBjörguðu frosinni álft af Ölfusá