Samfylkingin stærst í Suðurkjördæmi

Víðir Reynisson 3. þingmaður Suðurkjördæmis, Ása Berglind Hjálmarsdóttir 9. þingmaður Suðurkjördæmis og varaþingmaðurinn Sverrir Bergmann.

Samfylkingin nýtur mests fylgis í Suðurkjördæmi í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup sem tekinn var í júlímánuði. Fylgi Samfylkingarinnar er 25,7 prósent og þar á eftir kemur Sjálfstæðisflokkurinn með 24,8 prósent.

Sem fyrr er langstærsta vígi Flokks fólksins í Suðurkjördæmi. Fylgi flokksins hefur dalað mikið síðan í síðustu alþingiskosningum en hann er nú með 14,7 prósent fylgi í Suðurkjördæmi.

Miðflokkurinn er með 11,5 prósent, Viðreisn 8,9 og Framsóknarflokkurinn 8,2 prósent.

Aðrir flokkar eru með mun minna fylgi, Vinstri grænir, Píratar, Sósíalistaflokkurinn og aðrir eru undir 2,4 prósentum.

Gallup fékk 606 svör frá kjósendum í Suðurkjördæmi í netkönnun sem gerð var dagana 1.-31. júlí og birtir sunnlenska.is niðurstöðurnar úr Suðurkjördæmi í samstarfi við RÚV. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.

Samfylkingin fengi þrjá kjördæmakjörna þingmenn
Yrðu þetta niðurstöður þingkosninga í dag myndu Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn fá 3 kjördæmakjörna þingmenn í Suðurkjördæmi og Flokkur fólksins, Viðreisn og Miðflokkurinn 1 hver. Framsókn næði ekki inn kjördæmakjörnum manni í Suðurkjördæmi.

Fyrri greinBrúarhlaupið er fyrir alla fjölskylduna
Næsta greinÁgústa Tanja framlengir