Sameiningarmál könnuð í Rangárþingi ytra

Hella. Ljósmynd/Rangárþing ytra

Sveitarstjórn Skaftárhrepps sendi sveitarstjórnum Mýrdalshrepps, Rangárþings eystra og Rangárþings ytra erindi á dögunum þar sem óskað var eftir því að sveitarfélögin myndu hefja að nýju könnun á mögulegri sameiningu.

Í september síðastliðnum var kosið um sameiningu þessara fjögurra sveitarfélaga auk Ásahrepps. Sameiningartillagan var kolfelld í Ásahreppi en samþykkt í hinum sveitarfélögunum.

Fjallað hefur verið um erindi Skaftárhrepps í sveitarstjórnunum á síðustu dögum. Mýrdalshreppur vill bíða með frekari viðræður að svo stöddu og í Rangárþingi eystra var afgreiðslu erindisins frestað.

Í Rangárþingi ytra verður hugur íbúanna til sameiningarinnar kannaður og hefur sveitarfélagið samið við Maskínu ehf um að framkvæma könnunina dagana 1. til 8. desember. Stefnt er að því að ná til sem flestra af íbúum Rangárþings ytra 18 ára og eldri. Starfsmenn Maskínu munu hringja í íbúa og senda SMS og netpóst til þeirra sem ekki næst til með öðrum hætti.

Spurt verður hvort íbúar vilji skoða sameiningu með Skaftárhreppi og Rangárþingi eystra; eða skoða sameiningu með Rangárþingi eystra, eða láta staðar numið með skoðun á sameiningu að sinni.

Fyrri greinHlaupvatn komið í Gígjukvísl
Næsta greinÓvissustigi lýst yfir vegna Grímsvatnahlaups