Sameining prestakalla vart á dagskrá fyrr en 2016

„Hvað sem verður gert í þessu máli þá tekur það langan tíma. Ég tel líka að það eigi að taka tíma og að það eigi að leita allra leiða til þess að ná sameiginlegri niðurstöðu sem sátt er um.

Það þarf að tryggja prestsþjónustuna í Eyrarbakkaprestakalli til langs tíma, og ein tillagan til þess er að Eyrarbakkaprestakall og Þorlákshafnarprestakall sameinist. Það varð sameiginleg niðurstaða biskupafundar,“ segir Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti aðspurður hvort það stæði til að sameina þessi tvö prestaköll.

Séra Jón Dalbú Hróbjartsson þjónar nú Eyrarbakkaprestakalli í afleysingu og séra Baldur Kristjánsson er prestur í Þorlákshöfn.

Haldinn var fundur með sóknarnefndarfólki nýlega þar sem farið var yfir hugsanlega sameiningu prestakallanna. Samkvæmt heimildum Sunnlenska fékk sameiningarhugmyndin lítinn hljómgrunn meðal sóknarnefndarfólks en sóknarnefndirnar í Eyrarbakkaprestakalli horfa frekar til sameiningar við Selfossprestakall heldur en Þorlákshafnarprestakall.

„Héraðsfundur Suðurprófastdæmis verður haldinn í lok mars. Það eru alveg engar líkur til þess að sá fundur fái þetta mál til afgreiðslu. Til þess er tíminn of skammur. Með öðrum orðum, ef það er vilji fyrir sameiningu þá tekur hún í fyrsta lagi gildi á kirkjuþingi 2016. Á meðan þetta mál er í ferli verður Eyrarbakkaprestakall ekki auglýst. Það verður hinsvegar að tryggja prestsþjónustuna á meðan,“ segir Kristján Valur.

Fyrri greinBrynja ráðin til Kötlu jarðvangs
Næsta greinSamið við kvenfélagskonur um gerð margnota innkaupapoka