Sameining Háskólafélags og Fræðslunets til skoðunar

Umfang reksturs Háskólafélags Suðurlands eykst ár frá ári. Gengið hefur nokkuð á eigið fé félagsins sem er einkafélag í eigu sunnlenskra sveitarfélagsins.

Þetta kom fram á aðalfundi félagsins sem haldinn var á Flúðum nýverið.

Rekstrartapið í fyrra var um 8,2 milljónir króna, samanborið við 6,7 milljónir árið 2011. Undanfarin ár hefur tapið numið 20,4 milljónum króna en áður var hagnaður, einkum vegna hás vaxtastigs. Heildarrýrnun eigin fjár er því um 13,7 milljónir króna á undanförnum fimm árum og er nú um 56,7 milljónir.

Að sögn Sigurðar Sigursveinssonar má rekja tapreksturinn til aukinna umsvifa sem tengjast ákveðnum tímabundnum verkefnum, svo sem Katla Geopark, auk þess sem nokkur fjárfesting hefur verið í búnaði til kennslu og annars.

Á aðalfundinum voru kynnt áform um að Hornfirðingar gangi inn í félagið, og um leið koma inn með hlutafé, um sex milljónir króna. Í framhaldinu er ætlað að sveitarfélagið Hornafjörður hætti þátttöku í verkefninu Austurbrú, sem svipar til þeirrar starfsemi sem Háskólafélagið hefur staðið fyrir. Við það ætti framlag til háskólafélagsins að hækka, að sögn Sigurðar, þótt ekki sé búið að semja við menntamálaráðuneytið um slíkt. Samningur Háskólafélagsins við ráðuneytið rennur út um áramót og í gangi er vinna við stöðugreiningu um fjárþörf þess. Rætt er um framlengingu og endurskoðun á samningi í ljósi aukinna umsvifa og stækkun starfssvæðis.

Sigurður segir að umræðan um sameiningu við Fræðslunet Suðurlands komi upp öðru hvort. „Menn hafa velt því fyrir sér, en engar ákvarðanir teknar,“ segir hann. Starfsemi þessara félaga eru nú undir sama þaki í Sandvíkursetrinu á Selfossi auk þess sem samnýting er á starfsfólki. „Við skoðum vinnuferli og verkefni, hvernig slíku er viðkomið, en hvort það feli í sér sameiningu er ekki vitað,“ segir Sigurður. „Þar skiptir mestu máli hvað hentar þessari starfsemi og fólkinu sem nýtir sér hana.“

Fyrri greinBragi ráðinn þjálfari Hamars
Næsta greinTARK mun hanna Hamar