Samdráttur í nýbyggingum á Suðurlandi en allt á fullu í Ölfusinu

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Nú í september eru 317 íbúðir í byggingu í Árborg og 235 í Ölfusi. Þetta kemur fram í septembertalningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Talningin er framkvæmd tvisvar sinnum á ári en frá því fyrri talningin fór fram í mars hefur fjöldi íbúða í byggingu í nágrenni höfuðborgarsvæðisins aukist um 4%.

Athygli vekur að mesta fjölgunin varð í Ölfusi en á móti var mest fækkun í Árborg. Á landsbyggðinni dró talsvert úr framkvæmdum á milli talninga og reynist samdrátturinn mestur á Suðurlandi, þar sem fjöldi íbúða í byggingu dróst saman um 17%. Á landsbyggðinni eru flestar nýjar framkvæmdir í Ölfusi, þar sem hafist var handa við byggingu 111 íbúða.

Í Ölfusi er nú verið að byggja 8,25 íbúðir á hverja 100 íbúa sem er, ásamt Vogum á Vatnsleysuströnd, langhæsta hlutfall landsins. Í mörgum byggðum eru aðeins örfáar íbúðir í byggingu, sem skilar sér í mjög lágu hlutfalli miðað við íbúafjölda. Þó eru nokkrar undantekningar þar sem hlutfallið er hærra, eins og í Hrunamannahreppi, sem sýnir að jafnvel smærri byggðir geta haft mikla uppbyggingu ef eftirspurn og aðstæður þar leyfa. Í Hrunamannahreppi eru 2,95 íbúðir í byggingu fyrir hverja 100 íbúa.

Ef rýnt er í tölurnar má sjá að í Árborg eru 317 íbúðir í byggingu, í tæplega helmingi þeirra er verið að reisa burðarvirki en 17 eru fullbúnar. Í Ölfusi eru 235 byggingar í smíðum, flestar á fyrstu byggingarstigum en 62 eru fokheldar eða lengra komnar. Í Hveragerðisbæ eru 119 íbúðir í byggingu, þar af 20 fullbúnar.

Í uppsveitum Árnessýslu er talsvert byggt. Nú eru 27 íbúðir í byggingu í Hrunamannahreppi, og 19 í Bláskógabyggð og í báðum sveitarfélögunum er meira en helmingurinn fokheldur. Í Skeiða- og Gnúpverjahreppi er jarðvinna hafin fyrir 12 íbúðir en samtals eru 18 íbúðir í sveitarfélaginu, 13 í Grímsnes- og Grafningshreppi og 8 í Flóahreppi.

Í Rangárvallasýslu eru 46 íbúðir í smíðum í Rangárþingi eystra og 25 í Rangárþingi ytra, flestar fokheldar. Í Mýrdalshreppi eru 16 íbúðir í smíðum, þar af 12 fokheldar.

Fyrri greinBerserkir BJJ með fjögur gull á Íslandsmótinu
Næsta greinÞarfagreining