Samborg tilnefnd til foreldraverðlauna

Samborg, samtök foreldrafélaga grunn- og leikskólanna í Árborg, voru tilnefnd til foreldraverðlauna Heimilis og skóla sem afhent voru á dögunum.

Félagið fékk tilnefninguna fyrir að efla samstarf milli foreldrafélaga allra grunn- og leikskóla í Sveitarfélaginu Árborg.

Inga Dóra Ragnarsdóttir, formaður Foreldrafélags Sunnulækjarskóla og Guðbjörg Guðjónsdóttir, gjaldkeri Foreldrafélags Vallaskóla, tóku við viðurkenningu fyrir hönd Samborgar úr höndum Illuga Gunnarssonar, menntamálaráðherra, og Önnu Margrétar Sigurðardóttur, formanns Heimilis og skóla.

Í gegnum Samborg eru foreldrafélög skólanna komin í samstarf og hafa meðal annars staðið fyrir sameiginlegum fyrirlestrum og kynningarfundum. Í fyrstu ákváðu foreldrafélög grunnskólanna þriggja að styrkja foreldrasamstarf í sveitarfélaginu, óháð í hvaða skóla börnin eru.

Í vetur bættust svo leikskólarnir í hópinn og er ætlunin að koma á meiri formfestu hjá Samborg í haust.