„Saman grátum við, brosum, hlæjum og elskum“

Herra Hnetusmjör sló í gegn á styrktartónleikunum. Ljósmynd/Marta Lipiec-Bortkiewicz

Alls söfnuðust 3,5 milljónir á styrktartónleikunum fyrir fjölskyldu Víglundar Þorsteinssonar frá Haukholtum, sem haldnir voru í félagsheimilinu á Flúðum í síðustu viku.

Víglundur lést af slysförum þann 28. maí síðastliðinn. Sveitungar hans vildu gera eitthvað fyrir fjölskyldu hans en Víglundur var vinur allra og er hans sárt saknað af öllum þeim sem þekktu hann.

Sveit sem stendur saman
Ragnheiður Hallgrímsdóttir og Bessi Theodórsson sáu um að skipuleggja tónleikana og var það mál manna að þeir hefðu heppnast ákaflega vel.

„Markmiðið mitt og grunnurinn á bak við hugmyndina var að skilja eftir gleði fyrir krakkana okkar í sveitinni og nærumhverfi á mjög erfiðum tímum, sýna þeim í verki hvað er að standa saman þegar lífið sjálft bankar upp á. Við skiluðum því markmiði og gott betur,“ segir Ragnheiður í samtali við sunnlenska.is.

Frá tónleikunum. Ljósmynd//Marta Lipiec-Bortkiewicz

„Að fá síðan með sér í lið fremstu tónlistarmenn landsins; Herra Hnetusmjör, VÆB og Stuðlabandið, er ómetanlegt og eiga þeir hrós skilið fyrir fagmennsku með fullt af hlýju til krakkana okkar. Strákar, ef þið eruð að lesa þetta, takk aftur fyrir ykkar framlag. Takk fyrir að mæta í litla samfélagið okkar og sýna krökkunum okkar og okkar fólki samstöðu og hlýju með fagmennsku í fyrirrúmi. Og ég tala nú ekki um öll fyrirtækin sem stóðu með okkur í þessu verkefni. Það er ómetanlegt hvað allir voru klárir í slaginn. Það voru allir til í að leggja sitt af mörkum.“

Góð tilfinning að gleyma sér um stund
Ragnheiður segir að það hafi verið miklar tilfinningar í gangi eftir tónleikana. „Þetta var ósköp einfalt, ég grét af gleði! Að heyra í krökkunum og fólkinu okkar baksviðs þegar Herra Hnetusmjör steig á svið er móment sem ég lifi lengi á, hugsa ég. Það gleymdu sér flestallir um stund og það var góð tilfinning. Eða eins og við sögðum: Þetta er svakalegt.“

Fullt var út úr dyrum á tónleikunum. Ljósmynd/Bessi Theodórsson

„Tilfinningin þegar lokatalan kom var vægast sagt mögnuð. Að ná að safna 3,5 milljónum á þremur klukkustundum er vel gert og gott betur en það, því markmiðið var númer eitt samstaða og gleði á erfiðum tímum – og síðan peningarnir.“

„Það sannaðist í verki að saman getum við gert svo margt. Saman grátum við, brosum, hlæjum og elskum og við gerum það saman. Andrúmsloftið var áþreifanlegt og einkenndist af trú, von og kærleik. Þetta var eftirminnilegt og ógleymanlegt kvöld sem skilaði sínu markmiði til fjölskyldunnar í Haukholtum og fyrir það verð ég ævinlega þakklát fyrir,“ segir Ragnheiður að lokum.

Hægt er að sjá fleiri myndir frá tónleikunum hér. Myndirnar tók Marta Lipiec-Bortkiewicz.

Þeim sem vilja styrkja fjölskylduna í Haukholtum er bent á bankareikninginn 0325-22-001401, kt. 700169-7239.

„Nallinn“ er landsfrægur keppnistraktor í eigu Bena & Hönnu. Hann er betur þekktur í svörtum lit en var sérstaklega sprautaður og merktur fyrir styrktartónleikana. Húddið verður svo tekið af og varðveitt upp á vegg. Ljósmynd/Marta Lipiec-Bortkiewicz
Fyrri greinSveinn Skúli og Andri Már Íslandsmeistarar
Næsta greinGlæsileg sumarhátíð í Hveragerði um helgina