Samþykktu að gefa í söfnun kirkjunnar fyrir Landspítalann

Sveitarstjórn Rangárþings eystra samþykkti á fundi sínum í gær að gefa 100.000 krónur í söfnun Þjóðkirkjunnar til tækjakaupa fyrir Landspítalann.

Í fréttatilkynningu frá sveitarfélaginu segir að í raun sé um táknrænt framlag að ræða. Eins og fram hefur komið á sunnlenska.is er fyrsta barnið sem fæddist á landinu á þessu ári stúlka frá Hvolsvelli og fæddist hún á Landspítalanum. Í tilefni af því vill sveitarfélagið leggja fram fyrsta framlagið í söfnunina.

„Rangárþing eystra er afar stolt af því að nýársbarnið búi í sveitarfélaginu og samþykkti sveitarstjórnin að gefa 100.000 krónur í söfnun Þjóðkirkjunnar til tækjakaupa fyrir Landspítalann í tilefni þess. Landsbyggðarfólk treystir Landspítalanum sem þjónar öllu landinu þegar á reynir og því er afar mikilvægt að styðja þetta góða málefni,“ segir í tilkynningunni frá sveitarfélaginu.

Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri, mun afhenda Agnesi M. Sigurðardóttur, biskupi Íslands, framlag sveitarfélagsins.

Fyrri greinKosið á lista Framsóknar á morgun
Næsta greinGæsluvarðhalds krafist vegna rannsóknar á kynferðisbrotum