Saka meirihlutann um bókhaldsæfingar

Hart var tekist á um kostnaðartölur vegna loftborins íþróttahúss í Hveragerði á síðasta bæjarstjórnarfundi og gengu bókanir á víxl.

Að sögn Róberts Hlöðverssonar, oddvita minnihlutans, er nauðsynlegt að fyrir liggi með skýrum hætti hver kostnaðurinn er og að ekki séu stundaðar bókhaldsæfingar til að leyna honum.

“Í upphafi var talað um að húsið kostaði 200 til 250 milljónir króna. Nú viðurkennir meirihlutinn að það kosti 300 milljónir en við teljum rétt að tala um 400 milljónir. Það er verið að reyna að halda því fram að húsið sé 25% ódýrara en það er,” segir Róbert.

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri, segir að þessi umræða um kostnað við húsið komi upp aftur og aftur og bætti litlu við. Aðalatriðið væri að horfa til þess hvað bærinn þyrfti að staðgreiða fyrir húsið auk þess sem öllum ætti að vera ljóst að það sé þrisvar sinnum ódýrara en sambærileg hús.

Róbert segir að sú aðferð að dreifa virðisaukaskatti vegna hússins á 20 ár lækki ekki verð hússins og kostnaðurinn við það sé hár fyrir sveitarfélag sem skuldaði 2,3 milljarða króna í dag.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu